Kosið um verkfall

Kosið um verkfall

Á hádegi í dag, miðvikudaginn 26. apríl, hefst atkvæðagreiðsla um verkfallsaðgerðir vegna kjaradeilu Starfsmannafélags Mosfellsbæjar og 10 annara aðildarfélaga BSRB við Samband íslenskra sveitarfélaga. Atkvæðagreiðslan fer fram rafrænt og mun berast félögum í tölvupósti en einnig er hægt að opna hana hér.

Samband íslenskra sveitarfélaga neitar að verða við þeirri sjálfsögðu kröfu að leiðrétta augljósa mismunun á launum starfsfólks sveitarfélaga sem heyrir undir mismunandi kjarasamninga. Á mannamáli þýðir það að félagar STAMOS  eiga að fá að meðaltali 25% lægri launahækkun og verða af um 140.000 krónum sem aðrir hafa þegar fengið í launaumslagið. Um er að ræða fólk sem vinnur hlið við hlið, jafnvel í sömu starfsheitum innan sömu stofnana sveitarfélaga; t.d innan leikskóla, grunnskóla, heimila fatlaðs fólks, íþróttamannvirkja og áhaldahúsa. Slík óbilgirni verður ekki liðin og því er kominn tími til frekari aðgerða.

Sameiginlegar kröfur BSRB félaga eru:

  • Jöfn laun og kjör tryggð fyrir jafnverðmæt, sömu og sambærileg störf hjá sveitarfélögunum frá 1. janúar 2023.
  • Launamismunur milli starfsfólks sveitarfélaga og starfsfólks Reykjavíkurborgar verði leiðréttur bæði hvað varðar grunnlaun og aukagreiðslur.
  • Mismunandi greiðslur til sjóða félagsins frá 2016 – 2023 verði einnig leiðréttar til jafns við aðra.

Greidd verða atkvæði um verkföll á ákveðnum vinnustöðum sem ætlað er að þrýsta á Samband íslenskra sveitarfélaga að verða við réttlátum kröfum starfsfólks sveitarfélaga um allt land. Í Mosfellsbæ munu starfsmenn leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila leggja niður störf, verði það niðurstaða atkvæðagreiðslunnar. Tímasetningar verkfalla koma fram á atkvæðaseðli.

Athugið að allt félagsfólk STAMOS  hefur  atkvæðisrétt hvort sem verkföll eru fyrirhuguð á þeirra vinnustað eða ekki. Við hvetjum því öll  til að kjósa til að tryggja starfsfólki félaga BSRB hjá sveitarfélögunum sanngjarnar launahækkanir. Þitt atkvæði skiptir máli.

Atkvæðagreiðslu lýkur kl 12:00 á laugardag, 29. apríl, og verða niðurstöður birtar í kjölfarið.

Sömu laun fyrir sömu störf!

Innskráning fyrir kosningu

Deila frétt